Virðisaukandi heimasíður

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, frá 2012, nota 98% íslendinga á aldrinum 25-65 ára internetið að staðaldri. Þannig má áætla að hægt sé að ná til nær allra íslenskra neytenda í gegnum netið. Flest fyrirtæki nýta sér þessa leið að einhverju marki og er algengasta markaðssetningin í gegnum vefsíður. Fyrirtæki eru þannig gjarnan með heimasíðu þar upplýsingum um vörur og þjónustu er komið á framfæri. Þegar viðskiptavinur skoðar vefsíðu skilur hann eftir spor sem hægt er að mæla og greina hegðun út frá. Þannig má mæla hversu margir skoða síðuna og hvernig þeir nota vefsvæðið, þ.e.a.s. forsíðuna og undirsíður. Hægt er að nýta þessar upplýsingar, greina tækifærin og finna leiðir til að gera vefmarkaðssetninguna markvissari sem hefur jákvæð áhrif á rekstur og afkomu fyrirtækisins.

Algengasta og eitt öflugasta tólið til að greina umferð og hegðun á netinu er Google Analytics. Í þessari grein verður fjallað um hvaða upplýsingum má ná fram, greiningar á þeim, hvernig má nota þær til að auka umferð um vefsvæðið og þar með tekjur fyrirtækisins. Mæling á vefumferð ásamt greiningu á hegðun notenda er gjarnan kallað árangursvöktun. Árangursvöktun er mikilvægur þáttur í að undirbúa markaðssetningu fyrirtækis á netinu.

Fjöldi heimsókna og flóttastuðull

Væri ekki gaman að vita hversu margir sáu auglýsinguna þína í fréttablaðinu? Prentmiðla er því miður mjög erfitt, ónákvæmt og kostnaðarsamt reyna að mæla. Það er hægt að telja hversu mörgum blöðum er dreift en ekki eins einfalt að telja hversu margir lesa þau, né hversu mörgum síðum notendur fletta. Annað má þó segja um heimsóknir á vefsvæði. Í hvert sinn sem einhver skoðar vefsíðu, skráist það í gagnagrunn og jafnframt skrást upplýsingar um allar síður sem viðkomandi skoðar. Þegar heimasíða er opnuð er gjarnan talað um „innlit“ en innlit hvers og eins gests er einnig skráð. Fjöldi innlita ásamt fjölda gesta eru grunnmælikvarðar við að mæla árangur vefsvæðis. Þeir segja til um hversu margir skoða vefsvæðið og hversu oft. Einnig er hægt að skoða síðuflettingar og athyglisverðan mælikvarða sem kallast „flóttastuðull“. Hann segir til um hversu hátt hlutfall gesta opnar vefsíðuna án þess að smella á tengla eða skoða undirsíður. Ef flóttastuðullinn er hár, bendir það til þess að efni síðunnar veki lítinn áhuga. Ef efni síðunnar er bætt og unnið í því að gera hana sýnilegri fyrir viðeigandi markhóp má leitast við að lækka þennan stuðul. Hár flóttastuðull getur verið vísbending um að verið sé, að laða að „ranga viðskiptavini“. Dæmi: Ef notandi, sem „Googlar“ orðið fitubrennsla, en endar á vefsíðu hjá fyrirtæki sem selur fellihýsi, er líklegt að hann loki strax vefsíðunni. Mörg nýleg dæmi sýna að sumar vefsíður laða að sér rangan viðskiptavini.

Heimsóknir frá leitarvélum

Leitarvélar eins og Google skanna vefsvæði, meta mikilvægi þeirra og gera þau aðgengileg fyrir tilvonandi viðskiptavini. Það að fólk leiti eftir ákveðnum orðum eða frösum á Google, skapar tækifæri tækifæri fyrir fyrirtæki sem vilja lenda ofarlega í leitarniðurstöðum. Þegar mælingar Google Analytics eru skoðaðar, má sjá frá hvaða leitarorðum gestir hafa fundið vefsvæðin. Stundum berst umferðin beint inn á undirsíður en þær síður eru gjarnan kallaðar lendingarsíður. Fyrirtæki í dag, leggja æ meira upp úr því að þessar síður séu markvissar og hafi öfluga „hvata til aðgerða“ (HTA). Leitaorð og lendingarsíður eru þá gjarnan þróuð saman til þess að styrkja virkni vefsvæðisins. Ef síðan er lítið að finnast á Google með ákveðnum leitarorðum eða jafnvel með röngum leitarorðum er tækifæri til að gera vefsíðuna leitarvélavænni. Grunnurinn að því er góð leitarorðagreining og leitarvélbestun vefsvæðisins. Orðið „leitarvélabestun“ er samheiti yfir allar þær aðgerðir sem hægt er að nota til að gera vefsvæði aðgengilegra leitarvélum.

Breytingar út frá mælingum

Þegar niðurstöður frá Google Analytics hafa verið teknar saman má greina tækifærin, gera breytingar á vefnum og bæta þannig gæði vefsíðu sem markaðstækis. Út frá mælingunum má breyta vefnum en þættir sem gjarnan er horft til eru:
• Notendavænt viðmót
• Skýrt aðgengi að vörum og þjónustu
• Skýrir og auðveldir hvatar til aðgerða (en. Call to Action)
• Leitarvélabestun
• Tenging við samfélagsmiðla
• Möguleikar á að nýta betur ýmiss vefkerfi og tæknilegar lausnir
Mælingarnar gefa einnig vísbendingar um hvernig breyta megi forsíðu þannig að hún höfði betur til þíns markhóps. Upplýsingarnar ásamt ýtarlegri leitarorðagreiningu opna möguleika á að þróa textana á síðunni þannig að vefsíðan finnist enn betur á leitarvélum eins og Google, á réttum leitarorðum. Það er einnig hægt að mæla árangur mismunandi hvata til aðgerða, t.d. hvort takki með „bóka fund“ eða „hafa samband“ fái fleiri smelli. Þannig er hægt að þróa vefsvæði til að hvetja til viðskipta.

Er árangursvöktun vænleg til árangurs?

Kostirnir við að árangursmæla vefsíðu eru m.a. að sjá má hversu margir koma á síðuna, á hvað þeir smella og hvernig þeir nota vefsvæðið. Þegar viðmóti vefsíðu er breytt, breytist gjarnan hegðun gesta, þannig er gott að mæla árangur breytinga mánaðarlega.. Árangursvöktun er því æskileg til að geta þróað vefsvæði á grundvelli þess hvernig það er notað.

Ókostirnir eru hins vegar þeir að árangursmæling og vinna á grundvelli hennar krefst sérþekkingar sem er að jafnaði ekki til staðar innan fyrirtækis. Þannig þarf að leita til utanaðkomandi sérfræðinga. Algengt er einnig að menn horfi á niðurstöður mælinga og nýti þær svo lítið eða ekki neitt. Það er svipað og að fara til læknis, fá sjúkdómsgreiningu og lyfseðil en sleppa því svo að leysa út seðilinn. Þannig er skjólstæðingurinn áfram í fullkominni óvissu um það hvernig sjúkdómurinn muni þróast. Þeir sem fara hinsvegar, reglulega í skoðun og fylgja leiðbeiningum, eru líklegri til að viðhalda góðri heilsu. Hvort sem um er að ræða skjólstæðing læknis eða vel rekið fyrirtæki.

Höfundar:
Björn Jóhannsson markaðsstjóri Allra átta
Jón Trausti Snorrason framkvæmdastjóri Allra átta
 
Greinin var fyrst birt í Viðskiptablaðinu, www.vb.is


Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.