Finnur Google þig?

„ Ef Google finnur þig ekki þá finnur þig enginn!“ Við höfum öll leitað eftir, vörum, þjónustu eða upplýsingum með hjálp leitarvéla. Þá sláum við inn eitt eða fleiri orð í gluggann hjá Google og fáum samstundis niðurstöður. Við göngum að þessu vísu, en Google hefur unnið talsverða vinnu til þess að viðeigandi niðurstöður birtist. Forrit sem gjarnan er nefnt skriðill eða könguló hefur verið sent til þess að skanna og lesa allar heimasíður. Skriðillinn skráir það sem er á vefsíðum eftir ákveðnu kerfi. Það er hannað með það að markmiði að birta niðurstöður sem svara leitinni sem allra best. Google hefur aldrei gefið upp hvernig þetta virkar nákvæmlega en grunnatriðin eru þekkt. Ef auðvelt er að finna síðu er hún leitarvélavæn. Hér á eftir eru 4 atriði sem gera síðu leitavélavænni:
1. Vel unninn leitarorðalisti
2. Vandaður texti með góðum leitarorðum
3. Góðir ytri tenglar
4. Vandlega merktar myndir

Vel unninn leitarorðalisti

Fyrsta skrefið til að vingast við Google er að komast að því hvaða leitarorð eru eðlileg þegar leitað er að fyrirtækinu þínu. Þetta er að hluta til almenn skynsemi en einnig er hægt að prófa leitarorð og komast að því nákvæmlega hvaða orð verða oftast fyrir valinu. Þannig mundi tannlæknir gjarnan vilja finnast þegar slegið er inn „tannlæknir“. Hann mundi einnig vilja finnast þegar leitað er eftir orðinu „tannlækningar“ en bæði orðin fá yfir 1000 leitir í mánuði hér á landi . Þannig er mikilvægt að velja orðin sem eiga við starfsemina, prófa þau og finna síðan enn fleiri orð sem eru viðeigandi og notuð af tilvonandi viðskiptavinum. Þá er gjarnan útbúinn listi þar sem leitarorðum er forgangsraðað en hann er kallaður leitarorðalisti.

Vandaður texti með góðum leitarorðum

Leitarvélar leita í textum. Textinn skiptir þess vegna miklu máli við leit að síðu. Það er þó ekki allt unnið með því að flétta inn fullt af leitarorðum, textinn þarf líka að vera athyglisverður fyrir lesandann. Það eru nokkur atriði sem geta tryggt þetta. Skrifið leitarorðin í nefnifalli því fólk skráir orðin gjarnan inn í nefnifalli. Notið leitarorð í heiti á síðum, fyrirsögnum og framarlega í textum t.d. í fyrstu 25 orðunum. Það er einnig þess virði að vera með eitt aðalleitarorð á hverri undirsíðu. Það er þá notað í fyrirsagnir, textann og við meðhöndlun á myndum.

Góðir ytri tenglar

Ef önnur síða vísar á þína skráist það sem ytri tengill, Því fleiri og merkilegri sem ytri tenglarnir eru því hærri einkunn fær síðan þín hjá Google og birtist þar með ofar í leitarniðurstöðum. Ef síða með háa einkunn vísar á þína síðu hjálpar það til við að koma þinni síðu ofar. Það er einnig hægt að búa til sín eigin ytri tengla og sem dæmi eru staðir eins og:
• Youtube
• Facebook
• Ja.is
Blogg
Með því að setja gott efni á þessar síður með tengingum í síðuna þína verður auðveldara fyrir bæði viðskiptavini og leitarvélar að finna hana.

Vandlega merktar myndir

Leit eftir myndum verður æ algengari og því skiptir máli að nýta þær til að benda á vefsíðuna. Fyrir utan það að þær séu staðsettar með viðeigandi texta eru þrjár leiðir til að gera þær vænni fyrir leitarvélar. Sú fyrsta er nafnið á skjalinu. Algengast er að myndirnar séu í jpg- formi og því gæti gott nafn fyrir mynd um heimasíður verið „heimasida.jpg“. Textinn við myndina ætti líka að innihalda viðeigandi leitarorð auk þess sem hægt er að setja inn svokallað alt-merki (en. alt tag) en það er m. a. notað fyrir sjálfvirka heimasíðulesara sem aðstoða blinda og sjóndapra.

Það er margt sem þarf að huga að ef Google á að finna þig en heimasíða mun alltaf standa og falla með leitarvélavænum texta sem einhver nennir að lesa, innihald sem er nógu merkilegt til þessa að einhver bendi á það og myndir sem styðja vel við textann.

 

Höfundar:
Björn Jóhannsson markaðsstjóri Allra átta
Jón Trausti Snorrason framkvæmdastjóri Allra átta
 
Greinin var fyrst birt í Viðskiptablaðinu, www.vb.is


Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.