Hvað kostar heimasíða? Þessi spurning kemur gjarnan upp í hugann þegar heimasíða er búin til fyrir fyrirtæki og jafnvel það allra fyrsta sem spurt er um hjá vefsíðufyrirtæki. Þetta er eðlileg spurning en henni er langt frá því að vera auðsvarað. Þetta er sambærileg spurning og „hvað kostar bíll?“ Bíll er farartæki sem kemur fólki og föggum frá A til B. Mismunandi bílar gera það hins vegar misvel og sami bíllinn hentar ekki við allar aðstæður. Hér skoðum við hvað liggur á bak við verð heimasíðu.

Vefsíða sem er alveg milljón

„Þú færð það sem þú borgar fyrir.“ Vefsíða er einn mikilvægasti hlekkurinn í markaðssetningu fyrirtækis og því meira sem lagt er inn, því meiri verður ávinningurinn. Algengur ferill við að setja upp heimasíðu er stefnumótun – þarfagreining – viðmótshönnun – efnisvinnsla – leitarvélabestun – umsjón vefsíðu. Ef við það síðan bætist að vefurinn innihaldi einnig vefverslun eða aðra sérsmíðaða virkni getur verðið hlaupið á milljónum en þá má oft einnig mæla ávinninginn í milljónum. Vefverslun má t.d. hugsa sem búð eða útibú til viðbótar við þau sem fyrir eru og salan þarf ekki að vera minni en í öðrum útibúum. Það má segja að „góð vefsíða sé alveg milljón“, því til þess að heimasíða sé viðskiptavæn þarf hún að vera vönduð, lýsandi fyrir fyrirtækið og hvetja til viðskipta. Í þessari grein er farið yfir verðlagningu heimasíðna.

Sérhannaðar vefsíður

Vefsíða þarf að skila hagræðingu og auknum viðskiptum, auk þess sem hún er oft lykilatriði við að koma ímynd fyrirtækis á framfæri. Hún getur á einfaldan hátt sýnt það sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða og gert viðskiptavininum kleift að nálgast það. Vefsíða sem gerir þetta vel hefur gjarnan eftirfarandi einkenni:
1. Auðvelt er að finna hana með hjálp leitarvéla (Leitarvélabestun)
2. Hönnun er vönduð og viðmót viðskiptavænt (Viðmótshönnun)
3. Texti er vel skrifaður og myndir viðeigandi (Leitarvélavænn texti)
4. Hún hvetur til aðgerða (HTA)
Til þess að allt þetta gangi upp þarf að hanna síðuna með viðskiptavininn og leitarvélar í huga. Með góðri leitarvélabestun (SEO) verður síðan spennandi og auðfundin. Forsíðan þarf að vekja áhuga og halda viðskiptavininum nógu lengi til þess að stórt hlutfall heimsókna verði að viðskiptum. Auðlesnir og vandaðir textar ásamt myndum sem styðja vel við það sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða, ýta undir viðveru á síðunni. Að lokum þarf síðan að hafa „hvata til aðgerða“ (HTA) en hann breytir heimsókn í viðskipti. Faglega unnin síða af reynslumiklum sérfræðingum sem uppfyllir þetta mun alltaf kosta meira en milljón.

 

Staðlaðar vefsíður

Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið. Vefsíðufyrirtæki geta verið með heimasíður með tilbúið útlit og virkni en þá eru notuð svokölluð síðusnið. Það er hægt að fá mjög falleg síðusnið, sem síðan eru sett upp í vefumsjónarkerfi, sem jafnvel eru án endurgjalds. Kostnaðurinn við slíkan vef er almennt frá hundrað þúsund krónum og upp úr, allt eftir því hversu flókinn hann er.

Heimasíða fyrir klink – gerðu það sjálfur

Fyrsta skref margra við uppsetningu heimasíðu er að fá góðan vin eða ættingja, sem hefur brennandi áhuga á vefsíðugerð, til að setja upp eina slíka fyrir lítinn pening. Einnig eru til ódýr kerfi sem gera fyrirtækjum kleift að setja upp heimasíðu fyrir „klink“ jafnvel innan við hundrað þúsund krónur. Meðal þessara kerfa eru WordPress (bloggkerfi) og Squarespace sem virka þá eins og blogg þar sem öll samskipti fara fram í gegnum vefsíðu. Til þess að þetta skili góðum árangri þarf eftirfarandi þekking að vera til staðar:
1. Þekking á hönnun og viðmóti vefsíðna
2. Þekking á textaskrifum með tilliti til leitarvéla
3. Þekking til að skipuleggja og setja inn HTA (hvata til aðgerða)
4. Þekking til að verkefnisstýra og viðhalda vefsíðuverkefni
Öll þessi þekking er vandfundin hjá sömu manneskjunni og því líklegt að það þurfi að leita til sérfræðinga og veffyrirtækja.

„Þú færð það sem þú borgar fyrir“

Það sem þú leggur inn er í beinu hlutfalli við það sem þú tekur út. Lykilatriðið er að fyrirtæki skoði vel ávinninginn sem næst með góðri heimasíðu. Þekkingin sem er innan fyrirtækisins og hvar best sé að standa með tilliti til samkeppninnar. Reynslan hefur sýnt að þau fyrirtæki sem vinna grunnvinnuna vel, velja góðan samstarfsaðila og leggja það sem þarf í verkefnið geta haft verulegan ávinning af vefsíðu sem er „alveg milljón“.

Höfundar:
Björn Jóhannsson markaðsstjóri Allra átta
Jón Trausti Snorrason framkvæmdastjóri Allra átta
 
Greinin var fyrst birt í Viðskiptablaðinu, www.vb.is


Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.