Leitarvélabestun ( SEO )

“Ef Google Finnur þig ekki, þá finnur þig enginn”

Leitarvélabestun er aðgerð til þess fallin að koma samskiptasíðum fremst í röðina þegar leitað er með leitarvélum eins og t.d. Google. Baráttan um efstu sætin er hörð og því skiptir miklu máli að vinnan sé leyst vel af hendi til að sem bestur árangur náist. Hér á eftir eru útskýrð þrjú mikilvæg skref sem vert er að hafa í huga til betri árangurs fyrir samskiptasíður fyrirtækja.

Skref 1 – Leitarorðalisti

Orðalistinn skiptir mestu máli í leitarvélabestun. Hann samanstendur af þeim orðum sem líklegust eru til að verða fyrir valinu þegar leitað er að ákveðinni vöru eða þjónustu hjá fyrirtækjum. Listinn þarf að innihalda öll þau orð sem eiga við um starfsemi fyrirtækisins og þess vegna er mjög mikilvægt að kanna vel fyrirtækið, heimasíðu þess og helstu samkeppnisaðila. Öllum upplýsingum er safnað saman í orðalista sem samanstendur af yfir 100 orðum eða orðasamböndum. Orðalistinn er keyrður í gegnum vefgreiningartæki eins og AdWords sem veitir upplýsingar um hversu oft er leitað að ákveðnu orði. Með hjálp greiningarinnar er orðunum raðað í forgangsröð þar sem tíu mikilvægustu orðin eru valin. Þau gegna síðan lykilhlutverki við hönnun og uppsetningu vefsvæðisins.

Skref 2 – Vefskrif

Þegar vefurinn er skipulagður og texti skrifaður eru leitarorðin á listanum notuð í heiti á síðum og við textaskrif. Fyrir íslenskar vefsíður þarf að hafa sérstaklega í huga að orðin séu í sama kennifalli og viðskiptavinurinn notar við leitina. Algengast er að hafa orðin í nefnifalli. Á forsíðu vefsins eru helstu leitarorðunum komið fyrir ásamt vörumerki fyrirtækisins. Undirsíður eru hannaðar þar sem mikilvægustu orðin eru birt og þar eru þau látin gegna lykilhlutverki. Fyrirtæki sem selur föt gæti þá t.d. verið með síðu þar sem sérstök áhersla væri lögð á orðasamband eins og „kjólar fyrir konur“. Sú síða væri þá lendingarsíða þar sem markmiðið væri að hvetja viðskiptavini til að kaupa viðkomandi vöru.

Skref 3 – Markaðssetning

Síðasta skrefið er vefmarkaðssetning sem snýst um að finna leiðir með það að markmiði að vísa öðrum síðum á viðkomandi vefsíðu. Eftir því sem oftar er bent á „viðeigandi síðu“skorar fyrirtækið hærra hjá leitarvélum. Á þessu stigi geta auglýsingar skilað góðum árangri. Gjaldið fer eftir því hversu oft orð á listanum birtist í auglýsingum eftir leitarniðurstöðum. Að lokum skiptir máli að uppfæra síðuna reglulega því það getur haft áhrif á hversu oft leitarvélar yfirfara síðurnar. Vert er að hafa í huga að hegðun leitenda getur breyst og því er mjög mikilvægt að yfirfara og uppfæra leitarorðalistann reglulega.

Þessi þrjú skref eru kjarninn í leitarvélabestun. Vel skrifaður texti og söluhvati á vefsíðum getur ráðið úrslitum um góðan árangur fyrirtækja.