Loksins, er orðið þægilegt að versla á Netinu. Samkvæmt hagstofunni verslaði um helmingur þeirra sem notaði Netið vörur eða þjónustu í gegnum vefsíður á árinu 2011. Heimilisfeður keyptu þar bækur, unga fólkið tónlist og inneign á síma og konurnar föt, skó og fylgihluti. Þótt meirihluti verslunar fari fram í hefðbundnum búðum hafa bæði neytendur og kaupmenn uppgötvað augljósa kosti netverslunar.
Spurningin er hvort búðin þín verði næsta netverslun? Á síðasta ári voru algengustu kaupin á Netinu tengd ferðaþjónustu, þ.e. farmiðar, gisting, bílaleigubílar o.s.frv. Fast á eftir komu fjarskiptaþjónusta, bækur og hugbúnaður, síðan föt og handverk og hefur sú vara tekið augljósan kipp sem söluvarningur á Netinu.
Netverslanir eru opnar fyrir viðskiptavini allan sólarhringinn og eru þægilegar fyrir þá sem vinna óreglulegan vinnutíma. Hægt er að skoða vörur heima í stofu og ganga frá kaupum án þess að bíða í röð. Enginn þarf að vakta búðina fyrir kaupmanninn og hann getur gengið frá pöntunum á venjulegum vinnutíma.

Skref 1: Viðskiptamódelið

Að opna netverslun er í raun svipað og að opna búð við Laugaveginn. Það þarf að skilgreina markhópa og fullvissa sig um að þeir séu að leita að vöru og þjónustu á sama stað og verslunin er staðsett. Ef ekki, þarf að finna leiðir til að laða viðskiptavininn að búðinni með réttri markaðssetningu. Auðvitað þarf að ráða gott starfsfólk, kanna lagerhúsnæði og birgja. Vinnutími getur verið mun sveigjanlegri og staðsetning lagers einnig. Sýningarrýmið eða búðarglugginn er á Netinu. Allar ákvarðanir um leigu á fermetrum og staðsetningu húsnæðis eru því einfaldari. Helstu spurningar sem þarf að svara eru þessar:
• Er auðvelt að versla vörur sem netverslunin hefur upp á að bjóða í gegnum Netið?
• Er almenningur vanur að versla þessa vöru í gegnum Netið?
• Og ef ekki, er þá hægt að kenna þeim það?
Ókostirnir eru að fyrirmyndir eru oft fengnar erlendis frá. Þar er t.d. algengt að panta blóm á Netinu með heimsendingu. Hér á landi er hins vegar engin vel kynnt netverslun með blóm sem auðvelt er að nota.

Skref 2: Val á leiðum – þarfagreining

Það eru ótal fyrirtæki sem selja netverslunarhugbúnað. Nú skiptir máli að velja tækni sem er í samræmi við umfang. Tæknin sem notuð er þarf að henta bæði væntanlegum kaupendum og viðskiptamódeli netverslunarinnar. Meðal þess sem þarf að skoða er:
• Fjöldi vörutegunda og vöruflokka
• Sendingarleiðir
• Greiðsluleiðir
• Tengingar við önnur kerfi t.d. bókhalds- og vörukerfi

Hagkvæmasta leiðin til að framkvæma þetta er að skrifa góða kröfulýsingu og er hún gerð af verslunareiganda. Síðan er unnin þarfagreining í samstarfi við vefsíðufyrirtæki. Hún er unnin á þann hátt að hún geti nýst sem útboðsgögn fyrir vefsíðufyrirtæki. Með góðri þarfagreiningu er hægt að fá nákvæm tilboð eða verðáætlun.

Skref 3: Markaðssetning og leitarvélabestun

Það er ekki nóg að koma vefverslun í loftið og halda síðan að viðskiptavinirnir komi af sjálfu sér og versli sjálfkrafa. Vefsíðan þarf að finnast á leitarvélum eins og Google og jafnvel vera kynnt eftir hefðbundnum leiðum t.d. með auglýsingum, á prenti eða skjámiðlum. Ef síðan á að finnast í leitarniðurstöðum þarf að huga að leitarvélabestun. Hún er samansafn aðgerða úthugsaðar til þess að síðan birtist ofarlega í leitarniðurstöðum. Þá eru réttu leitarorðin greind og þau notuð á vefsvæðinu þannig að vefverslunin finnist auðveldlega. Aðrar leiðir til að finnast eru tengingar við upplýsingasíður eins og ja.is og samfélagssíður eins og youtube.com, facebook.com. Borðar hjá netmiðlum geta einnig skilað auknum viðskiptum.
Netverslun er í sókn samkvæmt tölum hagstofunnar og allar spár segja að aukningin verði enn meiri á næstu árum. Það eru því tækifæri í því að stökkva á vagninn núna og vera einn af þeim fyrstu til að opna verslun á netinu.

Höfundar:
Björn Jóhannsson markaðsstjóri Allra átta
Jón Trausti Snorrason framkvæmdastjóri Allra átta
 
Greinin var fyrst birt í Viðskiptablaðinu, www.vb.is


Leave a Comment

You must be logged in to post a comment.